Þegar herra Bjarni Halldórsson var sýslumaður á Þingeyrum1 sendi hann suður með bréf og peninga um veturinn. Sá maður er fór hét Hafliði, bóndi ungur og gjörvuglegur; átti hann heima á Aðalbóli í Miðfjarðardölum. Er ekki getið ferða hans fyrri en hann kom suður í Reykjavík og fór þar að erindum sínum, afhenti bréfin og peningana. En er hann hafði lokið erindum sínum sneri hann heimleiðis. Segir ekki af ferðum hans fyr en hann kemur á Úlfsvatn seint um kvöld; er það á Tvídægru. Gengur hann vatnið þar til hann sér að maður liggur á ísnum og veiðir silung. Gengur Hafliði til hans. Sér hann að silungakippa liggur á ísinum hjá hönum. Útilegumaðurinn stendur þá upp og ræður þegar á Hafliða. Tekst þar glíma mjög harðfeng; verða sviptingar miklar. Finnur Hafliði að hann vantar afl við fjallbúann; var hann þó ramur að afli. Hljóp hold hans í hnykla og blánaði mjög af sterkum átökum. Þó gat hann ekki komið Hafliða af fótunum. Dregur fjallbúinn hann að vökinni og vill færa þar niður, en Hafliði varðist því af öllu megni. En er að vökinni kom hljóp Hafliði í fang útilegumanninum sem fastast. Féll þá fjallbúinn aftur á bak og Hafliði ofan á hann og lætur kné fylgja kviði. Við þetta öskraði fjallbúinn ógurlega hátt svo Hafliða lá við óviti. Tók fjallbúi þá kníf úr ermi sinni; var hann í skeiðum. Hélt hann um skeiðarnar, en Hafliði náði skaftinu og af hönum hnífnum, rekur í kvið fjallbúanum; linast hann þá á tökunum. Síðan skar Hafliði á hálsinn og braut svo úr hálsliðunum og gekk af hönum dauðum; síðan fleygði hann hönum í vökina og sökk hann til grunna. Kastaði Hafliði þá ofan í silungakippunni og öllu saman. Síðan tekur hann á rás og hleypur eftir megni sem mest má hann þar til hann kemur ofan á svo nefndan Tungukoll; var það nálægt byggðum. Er ekki getið um ferðir hans fyrri en hann kom heim. Lagðist hann þá í rekkju og lá lengi, en varð þó heill um síðir. Síðan fór hann á fund sýslumanns og segir hönum af ferðum sínum hið ljósasta. Er ekki getið sýslumaður fyndi að því. Fór Hafliði síðan heim og bjó þar til elli og þótti jafnan góður drengur. Meina menn hann hafi verið Guðmundsson. Hafliði átti son þann er Guðmundur hét. Hans synir voru þeir Bjarni sem nú er á Bjargi í Miðfirði og Illhugi; varð hann skammær og dó úti í stórkafaldi.
1 Bjarni Halldórsson (1703–1773) var sýslumaður í Húnavatnsþingi frá 1728 til dauðadags, bjó á Þingeyrum frá 1737.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bls. 323–324.