Bjarni sýslumaður Halldórsson á Þingeyrum sendi einn vetur menn nokkra, hvern eftir annan, suður á land. En menn þessir komu ei til skila og var það ætlan manna að þeir hefðu komizt í hendur útilegumanna.
Illugi hét maður. Hann bjó á Aðalbóli í Miðfirði. Bjarni fékk nú Illuga því hann var maður hraustur og ákafur, og sendi hann suður. Segir ei af ferðum Illuga fyrr en hann kom norður aftur á Tvídægru. Þá var veður kalt og frost mikið. Illugi gekk beint norður heiðina því öll vötn voru á ís. Á einu vatninu sér hann hvar maður situr við vök eina og er að veiða silung. Illuga verður bilt við og heldur að hér muni sá vera sem týnt hafi hinum fyrri sendimönnum. Tekur hann þá á rás og hleypur upp með vökinni, en þegar dorgmaðurinn sér það rís hann á fætur og hleypur eftir Illuga. Sér Illugi það að hann dregur sig þegar uppi. Hættir hann þá hlaupunum og bíður mannsins. Ber hann skjótt að og verður ekki af kveðjum. Taka þeir þegar saman, og finnur Illugi það að hann skortir afl við mann þennan. Hugsar hann ekki um annað en verjast falli og það tókst honum. En maðurinn færði leikinn að vökinni og finnur Illugi það að hann ætlar að hrinda sér í vökina. Stökkur þá Illugi yfir vökina og fellur maðurinn í hana, en heldur annari hendi í úlpu Illuga. Tekur hann þá hníf undan ermi sinni og ristir um þvert brjóst á Illuga. Illugi verður óður er hann kennir sársins, og spyrnir fætinum í manninn svo hann féll niður í vökina. Hleypur nú Illugi slíkt sem af tekur og kemur um nóttina að Aðalbóli. Brýtur hann þá upp bæinn og hleypur inn. Út fer hann þegar aftur og hleypur sem æðisgenginn út að Þingeyrum. Þar brýtur hann upp og hleypur inn í svefnherbergi sýslumanns. Vaknar þá Bjarni og verður honum bilt við að sjá Illuga þar kominn alblóðugan. Tekur hann þá við honum og lætur græða hann. Sagði nú Illugi frá ferðum sínum og þótti öllum merkileg sagan.
Situr nú Illugi á Aðalbóli og ber ekki til tíðinda um sumarið. Haustið eftir hvarf meri ein sem Illugi átti og lét hann leita hennar. Leitarmenn komu jafnnærir heim aftur og fer þá Illugi sjálfur að leita. Gengur hann allan daginn og var veður bjart og fagurt. Um kveldið kemur hann að hól einum og var skuggi öðrumegin hólsins. Þá sér Illugi hvar fjórir menn sitja í skugganum. Verður hann þá hræddur og þykist nú vita að þar séu útilegumenn og muni þeir drepa sig ef þeir fái færi á sér. Tekur hann þá til fótanna og hleypur heim. Þegar hann kom heim kvaðst hann hafa séð fjórar spærur í mó.
Morguninn eftir fær hann sér menn nokkra og segir þeim sögu þessa. Fara þeir nú að hólnum og ætla að vita hvort útilegumennirnir væru þar enn. Áttu þeir þá að fá sín makleg málagjöld og var nú vígahugur í þeim Illuga. En þegar þeir koma að hólnum finna þeir þar enga útilegumenn, en þar lá meri Illuga afvelta og stóðu fæturnir allir í loft upp.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 178–179.