Prestsdæturnar og útilegumennirnir

Einu sinni var prestur fyrir norðan; hann átti þrjú börn; hétu dætur hans Sigríður og Helga, en um nafn sonar hans er ekki getið. Sigríður var efnilegust af börnunum; var hún bæði falleg og vel að sér. Sonur prestsins reri á Suðurlandi á vetrum á tveggja manna fari hjá formanni sem var ókvæntur.

Það bar til einn sunnudagsmorgun þegar sonur prestsins reri fyrir sunnan að hann lá vakandi í rúminu hjá formanni sínum. Segir þá formaður meðal annars að sig langi nú til að fara að gifta sig, en hér sé engin stúlka sem sér finnist að sig langi til að eiga. „Ef þú kemur norður,“ segir prestssonur, „þá skal ég útvega þér Sigríði systur mína;“ „er það efnileg stúlka,“ segir hann, „og fremri en Helga systir mín.“ Talast þá svo til millum þeirra að formaður fer norður um vorið með prestssyni í kaupavinnu. Prestssonur útvegar honum kaupavinnu að nokkru hjá föður sínum, en að nokkru á næsta bæ. Nú taka menn eftir því að Sigríður gefur sig lítið að formanni, en þó biður hann hennar og fær þá hreint afsvar. Síðan ber hann bónorð sitt upp við föður hennar og tekur hann því mjög fjarri. Samt sem áður fylgir prestssonur máli þessu svo fast að Sigríður er látin fara suður um haustið með formanni. Prestssonur fylgir þeim suður á fjöll og skilur þar við þau.

Nú halda þau leið sína suður á fjöllin. Einn dag kemur á þau þoka mikil og svo dimm að þau sjá varla hvort annað. Formaður hverfur Sigríði í þokunni, en þó sýnist henni alltaf vera maður á undan sér. Loksins snýr maður þessi til hennar, tekur hana af baki og ber hana inn í bæ og þar inn í herbergi. Þar er ekkert í herberginu nema uppbúið rúm og eitt borð. Því næst gengur maður þessi út og nú situr Sigríður þarna ein. Þegar líður undir kvöld kemur til hennar stúlka; hún færir henni mat, lætur hana hátta í rúminu og tekur öll fötin hennar. Nú sofnast Sigríði ekki vel og fyrst þegar líður á nótt rennur á hana mók. Samt vaknar hún skjótt og er þá maður fyrir framan hana í rúminu. Henni verður mikið um og hrindir honum fram úr rúminu og fer hann þá út. Þá sýnast henni alls konar ofsjónir svo hún verður hrædd. Kemur þá drengur inn til hennar og segir að það sé von að hún sé hrædd, fær henni bók og segir að hún skuli leggja hana á brjóstið. Hún gjörir þetta og hverfa þá ofsjónirnar. „Gáðu að því,“ segir drengurinn, „vertu ekki slæm við hann bróður minn,“ og fer hann síðan út. Um morguninn kemur stúlkan með matinn og færir henni fötin. Þarna er nú Sigríður samt ein allan daginn.

Um kvöldið kemur stúlkan með mat handa henni og tekur fötin eins og fyrri, en aldrei talar hún orð við Sigríði. Um nóttina sofnar hún, en þegar hún vaknar aftur er maður fyrir framan hana og hefur lagt aðra höndina yfir um hana. Hún sprettur upp, en maðurinn heldur nokkuð svo fast. Þá fer hún í vasa sinn, nær hnífi og ætlar að reka í hann. Þá fer hann úr rúminu og út. Nú sýnast henni alls konar ljótar myndir, en þegar hún leggur bókina á brjóstið hverfa þær. Kemur þá drengurinn til hennar og segir að henni liggi lífið á að vera ekki slæm við bróður sinn.

Nú líður af nóttin og næsta dag veitir stúlkan henni allan sama viðurgjörning og hina dagana, ber henni mat og tekur föt hennar að kvöldi. Þriðju nóttina sofnar Sigríður og sefur nú lengi, en þegar hún vaknar liggur maður fyrir framan hana og sefur hún svo alla nóttina að hún skiptir sér ekki af því. Um morguninn kemur til hennar maður á rauðum kjól. Hann mælti til Sigríðar: „Það er mér að kenna að þú ert hingað komin; er það ætlun mín að hafa þig fyrir konu. Hér er nú ekki annað fólk en móðir mín og systkin mín tvö sem þú hefur séð, og heitir bróðir minn Þórður. Í dal þessum er byggð mikil og er ég sýslumaður þeirra dalbúa.“ Síðan leiðir hann Sigríði í annað hús og er ekkert í húsinu nema borð eitt lítið. Þar dregur hann út skúffu undan borðinu og er hún full með fingurgull. Hann tekur eitt fingurgullið og dregur á hönd henni og leiðir hana síðan í hús það sem hún áður var í. Nú er ekkert frá sagt um samfarir þeirra, nema þau lifa í bæ þessum eins og hjón og fellur Sigríði allvel þar að vera; og fannst henni mikill munur á því eftir að hún setti upp hringinn.

Eitt sinn segir útilegumaður við Sigríði hvort hún vilji ekki sjá hvernig ástatt sé hjá foreldrum hennar, og vill hún það. Hann leiðir hana þá í afvikið hús; þar er brunnur. Hann fær henni gler og segir henni að halda því yfir brunninum. Þá sér hún heimili föður síns og fólk allt og hvernig ástatt er heima. Meðal annars sá hún formanninn að sunnan vera að draga Helgu systur sína á hárinu. Við þetta varð Sigríður óglöð mjög. Einu sinni tekur Sigríður eftir því að Þórður er ekki heima nokkra daga. Bregður henni þá við að einn dag kemur hann með Helgu systur hennar; hafði Þórður farið í byggð og getað náð henni; verður nú með þeim systrum mikill fagnaðarfundur. Sigríður fréttir nú að formaðurinn hafði snúið aftur um árið þegar þau fengu þokuna og fékk Helgu systur hennar fyrir konu; og voru samfarir þeirra hinar verstu.

Nú langar Sigríði mjög til að finna foreldra sína og leyfir maður hennar það. Hann segir henni að hún skuli gefa þeim kost á annaðhvort að fara hingað í dalinn eða þá að hann skuli styrkja þau þar heima. Nú fer Sigríður heim og fer Þórður með henni. Hún kemst til foreldra sinna og fagna þeir henni með mikilli blíðu því þeir vissu ekki annað en að hún mundi vera fyrir löngu dáin. Sigríður segir þeim nú af högum sínum og öllu eins og til hafði borið; síðan getur hún um kosti þá sem maður sinn bjóði þeim og kjósa þau þá heldur að fara í dalinn til Sigríðar. Að því búnu fara þau í dalinn með henni og með allt sitt. Fékk Þórður Helgu prestsdóttur, en systir útilegumannsins fékk prestssoninn, þann sem áður er um getið. Tók fólk þetta sér allt bólfestu í dalnum og varð dalur þessi seinna að byggð og urðu þá ekki lengur búendur dalsins útilegumenn. Er svo sagt að þeim dalbúum liði vel til elli og búnaðist vel.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 201–203.

© Tim Stridmann