Systkinin í Ódáðahrauni

Alla jafna hefur það þótt skemmsta leið úr Sunnlendingafjórðungi til Austfjarða um hásumar að ríða upp úr Hreppum og yfir Þjórsá á Sóleyjarhöfðavaði. Rétt fyrir innan þann höfða, austanvert við ána, er Þúfuver; dregur það nafn af hól nokkrum sem gengur fram í verið niður af Sprengisandi og heitir Biskupsþúfa; hafði þar til forna verið áfangastaður Skálholtsbiskupa þegar þeir fóru vísitazíuferðir norður í Múlasýslur.1 Þó heldur Jón prófastur fróði að þeir hafi ekki farið Vatnajökulsveg sem svo er nefndur, heldur riðið fyrst norður Sprengisand og síðan austur um Ódáðahraun til Möðrudals á Fjalli. Þenna veg hafði Oddur biskup Einarsson riðið nokkrum sinnum í Austfjarðavísitazíur og fékk sér jafnan leiðsögumann hinn sama yfir hraunið að austan, og skyldi hann mæta biskupi við Kiðagil fyrir norðan Sprengisand á tilteknum degi. Var til þess nefndur gamall bóndi félítill, kallaður Barna-Þórður. Á efri árum Odds biskups er hann fór þessa leið ætlaði hann enn til fylgdar Þórðar yfir hraunið, en fyrir einhverja orsök bar út af því að biskup kom ekki í Kiðagil á tilsettum tíma. Þórður kom á ákveðnum degi, en gat ekki beðið þar lengur en daginn sökum matleysis og setti upp ljóst merki við þornað moldflag eða tjarnarstæði að hann hefði þangað komið og ritaði með stafnum sínum vísu þessa á moldarflagið:

„Biskups hef ég beðið með raun
og bitið lítinn kost;
áður ég lagði á Ódáðahraun
át ég þurran ost.“

Skömmu eftir burtför Þórðar kom biskup og menn hans, lásu vísuna og sáu að ekki var upp á hans fylgd að ætla. Voru biskupssveinar í þá daga öngvir auðkvisar; þótti þeim langt að krækja norður til Mývatna og að ríða þaðan austur til Möðrudals, telja því biskupinn á að leggja yfir hraunið, kváðust gjarnan vilja treysta á fremsta með það með hans tilsjá og eftirtekt að við honum ranka muni. Ræðst það af fyrir þeirra umtölur að lagt var á hraunið, en biskup segir og sýnir leiðarstefnuna. Sagt er að þetta hraun sé öræfisvíðátta, en víða grasi vaxið, með öngvum merkilegum kennileitum, en vegalengd yfir hraunið beinleiðis svarar áfanga. Þegar þeir voru komnir austur í hraunið sló yfir þoku svo þeir vissu ekki hvað þeir fóru eða stefndu. Fóru þeir svo lengi villir vegar þangað til þeir þóttust finna reykjarlykt; riðu þeir nú eftir henni þangað til fyrir þeim verður lítill kotbær, nokkurt fólk, karlmenn og konur, og nokkur málnyta. Biskup hafði þar náttstað og lét tjalda, bannaði mönnum sínum að grennslast freklega um háttu þessa fólks og lét suma vaka um nóttina. Þar var biskupi veittur góður greiði og var honum sjálfum jafnvel borinn mjöður og útlendur drykkur. Var þetta fólk hvorki ómennilegt né heldur búnaður þess. Daginn eftir fylgdi bóndi biskupi á rétta leið yfir hraunið og Jökulsá slysalaust; riðu þeir báðir undan allan daginn og vissi enginn þeirra samtal. Að skilnaði gaf bóndi biskupi vænan hest er síðan var kallaður Biskups-Gráni. Biskup bannaði mönnum sínum að segja margt frá þessu, en sú var ætlun þeirra að þetta væri ekki illvirkjar, heldur sakamenn sem ratað hefðu í misferli fyrir kvennamál, en flúið í Ódáðahraun til að komast hjá hegningu.

Annar maður á fyrri öldum sem oftast fór þenna veg var Bjarni sýslumaður Oddsson á Burstarfelli, og reið hann þessa leið oft til alþingis og seinastur svo menn viti (1736). Menn þóttust hafa það til marks um að þá væri byggð í hrauni þessu að Bjarni tók þar jafnan áfanga eða jafnvel náttstað, reið einmana frá fylgdarmönnum sínum og kom aftur til þeirra öldrukkinn og það þó menn vissu enga von slíks drykkjar hjá honum.


1 Þar er og enn vanalegur áfangastaður áður en lagt er á Sprengisand. Þangað segja sumir að Barna-Þórður sem þegar verður nefndur hafi átt að koma til móts við Odd biskup og þar hafi hann átt að kveða vísuna.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 245–246.

© Tim Stridmann