Frá klukkunni í Hvammi.

Það er sagt, að þegar þakklætishátíðin var haldin 1817 í minningu um endurbót trúarbragðanna og átti að samhringja klukkum í Hvammi í Hvammssveit, að hin mesta klukkan, er venjulega var til hringinga höfð og þótti hin hljóðbezta, væri þá svo stöð og frábrugðin eðli sínu, að úr henni varð aðeins náð litlum dimmum eim, hvernig sem menn reyndu að berja hana. Þótti mönnum það ekki einleikið og gátu aldrei vitað, hvað valda mundi, en það eitt þóttust menn af sögnum vita og með sannindum, að klukka þessi hefði verið lengi í Hvammi og allar götur ofan úr pápisku. Næsta sunnudag þar eftir var klukkunni hringt, og hélt hún þá venjulegu hljóði sínu, og aldrei kvað hafa borið neitt á henni síðan.

Eftir sögn séra Friðriks Eggerz 1852.

Источник: Þjóðsögur og munnmæli (1956), Jón Þorkelsson, bls. 17–18.

© Tim Stridmann