Keraldið. Einu sinni smíðaði ég kerald og lét ausa það við lind áður en það var gyrt, og lak ekki einum dropa. Þetta var á laugardagskvöld. Á sunnudaginn kom fólk til kirkju. Þá gengu margir að keraldinu og undruðust að ekki lak. Þótti þeim svo mikils um vert að tveir dóu af undrun.
Byljirnir. Eitt sinn var ég úti staddur þegar slagbyljaveður var hið mesta sem ég man. Þá voru kýr reknar úr fjósi. En þá vildi svo til að einn bylinn rak á þegar fyrsta kýrin rak höfuðið út. Bylurinn tók af höfuðið við fjósstafinn. Í sama bili kom annar bylur og rak höfuðið aftur á kúna svo fast að ekki losnaði aftur.
„Góður er sá brúni“. Einhverju sinni var ég á ferð og reið Brún mínum, þá voru þrumur í lofti og gekk skúrum. Ég sá einn mikinn skúr nálgast. Þá sló ég Brún, en setti áður mundlaug á lendina. Brúnn fór sprettinn til kvölds undan skúrnum. En þegar ég reið heim tröðina skullu fyrstu droparnir í mundlauginni og þá kölluðu englarnir í loftinu: „Góður er sá brúni!“
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bls. 250.