Niðjatal Þorvarðar Bjarnarsonar

Þorvarður bjó til elli í Njarðvík; hann átti son sem Magnús hét sem þar bjó eftir hann. Magnús átti son er Arngrímur hét sem bjó í Njarðvík; hann var kallaður hinn ríki; hann tíundaði fimmtíu hndr. fyrir utan fjórtán kirkjukúgildi. Hann var haldinn ríkastur á Borgarfjarðarhreppi. Hans sonur var Magnús er þar bjó, faðir Einars digra lögréttumanns í Njarðvík er þar bjó á dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar; hann var svo gildur af feiti að fáir fundust hans líkar. Kunnleikar vóru með Stefáni presti Ólafssyni skálda í Vallanesi og honum og sendu því hvör öðrum máta af sér árlega hvör fitnaði meira, en ætíð var Einar gildari. Hann átti sonu marga; einn var Magnús bóndi í Njarðvík, mesti hagleiksmaður eins og margir kynmenn hans. Hans synir voru Sigurður lögréttumaður hinn sterki, mikill maður og göfugur, og Hávarður. Þeir bjuggu báðir í Njarðvík og áttu ekki börn. Hávarður var þjóðhagi og þeir bræður báðir. Hann giftist ekki, en Sigurður fékk Guðrúnar Marteinsdóttir Rögnvaldssonar sýslumanns í Múlaþingi. Hávarður var fálátur mjög, en sérlega guðrækinn. Það var vani hans þá hann var við smíðar eða önnur verk, þá var hann að mæla þetta fyrir munni sér: „Heilagur, heilagur, heilagur almáttugur drottinn guð Zebaot.“ Enginn vissi afl hans, en þó varð honum mannýgð kýr að bana. Sigurður bróðir hans var gleðimaður mikill og færði mikla persónu, svo Fúrmann amtmaður hafði eitt sinn á Alþingi dáðst að vænleik hans þar sem hann stóð klæddur fornaldarbúningi úr skarlati. Ófyrirlátssamur var hann tíðum og hugdjarfur. Það var vani hans að vera árla á fótum á morgna. Það var einn vortíma snemma morguns að hann kom út og sá að engelskir fiskimenn fóru á stekk hans þar búsmali hans var og tóku eina á og báru til sjóvar; þeir vóru margir saman. Hann lét sér ekki bilt við verða, greip ás einn og hljóp til sjóvar og þá voru hinir útlendu búnir að koma ánni að bátnum og ætluðu að leggja frá landi, en hann hljóp að þeim og barði á báðar hendur með ásnum. Þeir komust nauðuglega frá landi, en eftir varð ærin, tvær byssur og margt fleira. Þeir voru svilar Björn sýslumaður Pétursson á Burstarfelli og hann. Eitt sinn mættust þeir í Vopnafirði á tæpum klettastíg, er Drangar heita, innan Vopnafjarðarkaupstaðar. Sigurður kom að utan, en Björn innan. Sigurður stýrði hesti sínum ofar á stíginn, en hinn hélt áfram, en þá þeir mættust skaut Sigurður við honum knénu og hratt honum ofan fyrir með hestinum. Fékk sýslumaður skaða af fallinu og lá mjög lengi. Margar sagnir gengu frá honum líkar þessum. Þegar bróðir hans dó vildi hann ekki láta jarða hann, því hann sagði að skammt mundi milli þeirra verða og væri bezt þeir lægi saman. Viku lifði hann lengur og vóru þeir jarðaðir saman.

Með þessum bræðrum endaði karlleggur sá sem langan tíma hafði búið í Njarðvík, sonur eftir föður frá Birni skafinn, hér um á miðri seytjándu öld.

Eftir þá bræður bjuggu í Njarðvík fóstursynir þeirra og ættmenn, Vigfús og Hallur Einarsson, faðir Sigurðar er þar bjó eftir föður sinn, faðir Bjarnar, föður Stefáns sem nú er settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 185–186.

© Tim Stridmann