Víða hefur haldizt vel við minningin um miklar landplágur, drepsóttir, dýrtíð og óár sem komið hafa yfir ýms héruð, og allt eins um jarðelda og vatnaumbrot. Þannig er sagt að Náhlíð, hérað eitt vestur í Dölum, dragi nafn af mannfelli þeim sem þar varð í svartadauða; eins er Sóttarhellir á afrétt Fljótshlíðarmanna frá þeim tíma og frásagan um galdramennina í Vestmannaeyjum, og er beggja hinna síðastnefndu áður getið.1 Eins eru ekki fáar sögur af eldgangi og auðnum þeim sem vatnsflóð hafa ollað hér á landi hingað og þangað, og eru þessi dæmi þar til ásamt öðrum.
Um það bil sem svartidauði tók að geisa var það siður bónda á einum bæ að hann las á hverjum morgni vetur, sumar, vor og haust. Eitt sinn var verið að taka saman hey því rigningarlega leit út. Vildi nú bóndi fara heim að lesa, en sumir löttu þessa og sögðu það væri nær að bjarga heyinu. Varð það þó úr að bóndi fór heim með fólki sínu og las. Um daginn sáust tveir ofurlitlir skýhnoðrar; færðust þeir nær og stækkuðu og urðu loksins að karlmanni og kvenmanni sem riðu gráum hestum. Þau riðu fyrir ofan garð hjá bónda; þá segir hún: „Skal hér heim?“ „Nei,“ segir hann, „það var oss ekki boðið.“ Nú dundi svartidauði yfir, en á þenna bæ kom hann aldrei og lifði þar allt fólk af.
1 Sjá 176. bls. og 308.–310. bls. í I. bindinu.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 101.