Svartidauði.

Þegar Svartidauði (1402–1404) var búinn að geisa um norðurland og kominn vestur að Hrútafjarðará, var hann í gráu nautslíki og ætlaði vestur yfir og vóð út í ána. En þegar hann ætlaði á land að vestan, kom þar móti honum rautt naut, svo hann sneri aftur. Leitaði hann þá annars staðar aftur yfir ána, en það fór á sömu leið, að rauða nautið var þar komið, svo að það gráa sneri aftur. Fór þá gráa nautið að ganga fram og aftur um austurbakkann, og eftir því, sem það færði sig, gekk rauða nautið alltaf á móts við það um vesturbakkann. Gengu þau þarna um bakkann allt sumarið, þar til um haustið, að þau hurfu. En Svartidauði komst aldrei vestur yfir Hrútafjarðará.1

Á einum bæ var það, að bóndi leit út í glugga og varð þess var, að eitthvað tvennt reið fyrir ofan. Heyrir hann þá, að sagt er: „Skal hér heim?“ — „Nei, hér er gras í túninu, sem við megum ekki koma nærri.“ Enda kom Svartidauði ekki á þann bæ.

Á öðrum bæ var það seint um kvöld, að bóndi þóttist viss um, að Svartidauði væri aðeins ókominn. Tendrar hann þá þrjú kertaljós og setur út í náttmyrkrið. Síðan heyrir hann, að sagt er: „Skal hér heim?“ — „Nei, hér logar Maríuljós í þúfu.“ Á þann bæ kom Svartidauði heldur ekki.

Þegar Svartidauði kom í Ólafsfjörð, voru þar smalar tveir, sem hétu Teitur og Sigga. Það var einn morgun snemma, að þau voru að smala upp í fjöllum. Sýndist þeim þá ókennilega þoku leggja um allan Ólafsfjörð, og réðu þau það því af að halda ekki ofan til byggða fyrr en þokunni létti af. Þoka þessi hélzt mjög lengi, og höfðust þau alla þá stund við á fjöllum uppi. En er þokunni létti af, héldu þau til byggða. Var þá allt fólk í firðinum dáið. Þegar Ólafsfjörður fór svo að byggjast á ný, varð stundum ágreiningur um jarðir og landamerki. Var þá jafnan leitað vitnisburða hjá Teiti og Siggu. Hér er af sprottinn málshátturinn: „Þá kemur nú til Teits og Siggu“.

Eftir „Allrahanda“ séra Jóns Norðmanns, eftir sögn í Fljótum, eftir sögn Katrínar Jónsdóttur konu sinnar og Sveins Pálssonar Skagfirðings. Enn fremur eftir sögnum, er hann heyrði á Staðastað 1840.


1 Sbr. Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 348. [Имеется в виду первое издание 1862 г. — прим. Speculatorius]

Источник: Þjóðsögur og munnmæli (1956), Jón Þorkelsson, bl. 238–239.

OCR: Speculatorius

© Tim Stridmann